Bakarinn Jón R. Arillíusson datt í lukkupottinn – Kreisti krumluna á Mike Tyson!
Jón rekur Kökulist í Firðinum í Hafnarfirði og var í viðskiptaferð í nóvember 2010 þegar hann rakst á goðið sitt, Mike Tyson.
Eins og strákur í nammibúð!
„Ég hitti Tyson á flugvellinum. Það var þannig að ég var að beygja mig niður til að umstafla í töskunum þegar ég rak botninn í einhvern sem stóð fyrir aftan mig og þá var það Mike Tyson sem var að vesenast eitthvað með lítið barn. Ég er sennilega sá eini sem hef náð að skúbba honum til með botninum,“ segir Jón sem var í viðskiptaferð í Bandaríkjunum þegar hann rakst á goðið, en Jón og eiginkona hans, Elín María Nielsen, voru í New York að skoða bakaríin Dean & Deluca og Boucheron Bakery sem hafa eins og Kökulist sérhæft sig í sykurlausum og olíulausum súrdeigsbrauðum.
Þegar Jón var kominn í gegnum vopnaleitina ákvað hann að láta vaða og spurði Tyson hvort hann mætti taka mynd af honum.
Hann sagði nei og tók af mér myndavélina og rétti tollverðinum og sagðist heldur vilja að hann tæki mynd af okkur þremur,
segir Jón sem var heldur betur ánægður með þau skipti.
Mike Tyson er númer eitt. Ég er búinn að fylgjast með honum frá byrjun og hef horft á alla hans bardaga. Það er enginn sem kemst með tærnar sem hann er með hælana og enginn íþróttamaður hefur átt annan eins feril. Hann bjó ekki yfir neinni tækni heldur var hreinn street fighter og menn sem voru stærri, þyngir og teknískari bognuðu fyrir honum. Fyrir mig að fá að taka í krumluna á honum var eins og fyrir lítinn strák að koma í nammibúð.
Texti: Ragnheiður M. Kristjónsdóttir